Háskóli Íslands

Afsláttur af námslánum tæpast réttu viðbrögðin við skorti á kennurum og hjúkrunarfræðingum

Í frumvarpi menntamálaráðherra um Stuðningssjóð íslenskra námsmanna, sem kynnt er í Samráðsgátt, er lagt til að veita megi afslátt af endurgreiðslu námslána vegna náms í tilteknum námsgreinum. Með þessu á meðal annars að draga úr skorti á kennurum og heilbrigðisstarfsfólki. Í umsögn Hagfræðistofnunar um frumvarpið koma fram efasemdir um að þetta sé rétta leiðin til þess að bregðast við skorti á starfsfólki. Um þessar mundir starfa rúm 60% þeirra, sem lagt hafa stund á kennaranám, við kennslu. Rétt rúmur helmingur kvenna, sem hafa stundað nám í heilbrigðisvísindum, vinnur í faginu. Skortur á fagfólki í heilbrigðisvísindum og kennslu stafar því varla af því að ekki hafi nógu margir lagt þessar greinar fyrir sig. Hæpið er að reyna að bæta úr skortinum með því að útskrifa fleiri nemendur úr þessum greinum í von um að 50-60% skili sér í vinnu. Með því er kröftum nemenda og kennara sóað. Ef laða á fleira fagfólk að þessum greinum er einfaldast að bæta þar starfskjör - nú þegar er nóg af vel menntuðu fólki sem getur tekið störfin að sér. Ef menn vilja ekki bjóða þau kjör sem þarf liggur beinast við að draga úr kröfum um menntun, til dæmis með því að færa greinar af háskólastigi yfir á framhaldsskólastig.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is